Í framhaldi af umræðum á aðalfundi BTÍ þann 16. maí síðastliðinn var boðað til auka-aðalfundar þann 8. október síðastliðinn til að ræða annarsvegar lagabreytingar félagsins og hinsvegar ályktun um löggildinu brunahönnuða.
Lagabreytingar sneru að inngöngu Brunatæknifélagsins í SFPE og jafnframt aðlögun á lögum m.t.t. krafna sem gerðar eru til samþykkta félagasamtaka. Lagabreytingar voru samþykkar einróma, nýju lögin hafa verið birt á heimasíðu BTÍ á slóðinni www.bti.is/log-bti.
Ályktun um löggildingu brunahönnuða var kynnt og samþykkt einróma af fundarmönnum. Rætt var að félögum BTÍ yrðu kynnt endanleg gögn sem send verða ráðherra. Ályktunina má lesa hér fyrir neðan.
Auka aðalfundur Brunatæknifélags Íslands, sem haldinn var í Síðumúla 1 í Reykjavík, skorar á félags- og húsnæðismálaráðherra að tryggja að brunahönnun mannvirkja verði sér svið í löggildingu hönnuða líkt og í nágrannalöndum okkar, þar sem það varðar öryggi fólks. Í dag eru fimm svið hönnunar þar sem krafist er löggildingar en ekkert þeirra inniheldur í raun hönnun á brunaöryggi mannvirkja. Á undanförnum árum, sér í lagi eftir 2012, hefur vægi hönnunar á brunavörnum og eftirfylgni brunavarna aukist umtalsvert. Krafist er trygginga líkt og um löggilt svið væri að ræða og að aðaluppdrættir séu undirritaðir af hönnuði brunavarna án þess að neinar lagalegar kröfur liggi til grundvallar. Brunaverkfræði er sér faggrein sem kennd hefur verið í mörgum stærri háskólum undanfarna áratugi. Framkvæmdaaðilar stærri og flóknari mannvirkja gera kröfur um að þeir sem annist hönnun brunavarna hafi sérþekkingu á faginu og viðeigandi menntun.
Fundurinn segir að virða þurfi mikilvægi brunavarna í mannvirkjum í samræmi við þarfir samfélagsins og þá þróun sem orðið hefur hér á landi og í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Löggilding ætti að stuðla að auknum gæðum hönnunar og þeirra gagna sem krafist er í byggingarreglugerð að skilað sé inn þegar sótt er um byggingarleyfi. Í dag er ekki unnt að svipta hönnuð brunavarna löggildingu né vera með formlegt eftirlit auk þess sem kröfur til gæðakerfa ná einungis yfir fagsvið innan löggildingar.
Fundurinn felur brunaverkfræðingunum Davíð S. Snorrasyni hjá ÖRUGG, Guðna Inga Pálssyni hjá COWI og Sveinbjörgu Söru Baldursdóttur hjá EFLU að útfæra tillögurnar frekar og skrifa bréf til ráðherra þar sem farið verður fram á löggildingu fyrir brunahönnun mannvirkja.
Auka aðalfundur Brunatæknifélags Íslands 8. október 2025, Reykjavík.