Fundur um drög að nýrri byggingarreglugerð verður miðvikudaginn 19. október 2011 kl. 8:00 að Hótel Loftleiðum.
Drögin hafa verið send út og fengið umsagnir hjá ýmsum aðilum og eru nú í endurvinnslu. Farið verður yfir stöðu málsins og afstaða umsagnaraðila könnuð.
Frummælendur verða:
Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar
Bjarni Kjartansson forstöðumaður Eldvarnaeftirlits hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og
Gunnar H. Kristjánsson brunaverkfræðingur hjá VSI.
Á morgunverðarfundinum verður rætt um brunavarnarákvæði í drögum að nýrri byggingarreglugerð sem væntanlega verður gefin út á næstunni, en þessi drög eru búin að vera í smíðum síðustu misseri. Hægt er að nálgast drögin á heimasíðu Mannvirkjastofnunar www.mvs.is og skoða þau þar. Tilefni þess að Brunatæknifélagið sér ástæðu til að taka heilan morgunverðarfund í umfjöllun um þessi drög er að kaflinn um brunavarnir hefur valdið mörgum þeirra verulegum vonbrigðum sem þurfa að notast við þessa reglugerð í störfum sínum. Það virðist vera að sá tími og það vinnuframlag sem Mannvirkjastofnun ætlaði í þennan kafla reglugerðarinnar hafi verið of skammur og vinnuframlagið of lítið.
Stjórn BTÍ telur að nauðsynlegt sé að kaflinn verði endurskoðaður og jafnvel endurskrifaður og það þarf að ætla í það verkefni bæði meiri tíma og vinnuframlag. Til þess að reglugerðin verði nothæfari, og fleiri sjónarmið komist að teljum við líka nauðsynlegt að fleiri aðilar komi að samningunni en embættismenn Mannvirkjastofnunar. Við vonum að sem flestir mæti á morgunverðarfundinn og tjái sig um þetta málefni.
Mikilvægt er að fá fram sjónarmið þeirra sem eiga eftir að starfa eftir þessari reglugerð um ókomin ár áður en hún verður gefin út. Reynslan sýnir að mjög erfitt og svifaseint er að breyta slíku regluverki eftirá og mistök geta haft afdrifaríkar afleiðingar.