Ágætu félagar. Í tilefni þess að félagið er búið að taka í notkun nýja heimasíðu finnst mér tilefni til að leggja inn nokkur orð í upphafi nýs starfsárs. Eins og þeir sem hafa opnað síðuna sjá er þetta alveg skínandi vettvangur fyrir félagsmenn hvort sem þeir vilja afla sér upplýsinga um starfið eða miðla upplýsingum. Sá sem á mestan heiður af uppsetningu og útliti síðunnar er Árni Árnason og á hann mikinn heiður skilinn fyrir frábært starf. Það er augljóst að hann hefur lagt mikla vinnu í verkefnið.
Á atburðadagatalinu er hægt að sjá hvað er framundan í starfi félagsins í vetur. Mig langar til að minnast hér á tvo næstu atburði en það er morgunverðarfundur nú 19. október og síðan hátíðarfundur sem verður 18. nóvember. Á morgunverðarfundinum verður rætt um brunavarnarákvæði í drögum að nýrri byggingarreglugerð sem væntanlega verður gefin út á næstunni, en Þessi drög eru búin að vera í smíðum síðustu misseri. Hægt er að nálgast drögin á heimasíðu Mannvirkjastofnunar og skoða þau þar. Tilefni þess að Brunatæknifélagið sér ástæðu til að taka heilan morgunverðarfund í umfjöllun um þessi drög er að kaflinn um brunavarnir hefur valdið mörgum þeirra verulegum vonbrigðum sem þurfa að notast við þessa reglugerð í störfum sínum. Það virðist vera að sá tími og það vinnuframlag sem Mannvirkjastofnun ætlaði í þennan kafla reglugerðarinnar hafi verið of skammur og vinnuframlagið of lítið. Ég tel að nauðsynlegt sé að kaflinn verði endurskoðaður og jafnvel endurskrifaður og það þarf að ætla í það verkefni bæði meiri tíma og vinnuframlag. Til þess að reglugerðin verði nothæfari, og fleiri sjónarmið komist að tel ég líka nauðsynlegt að fleiri aðilar komi að samningunni en embættismenn Mannvirkjastofnunar. Ég vona að sem flestir mæti á morgunverðarfundinn og tjái sig um þetta málefni en frummælendur verða örugglega af betri sortinni.
Samkvæmt atburðadagatalinu er hátíðarfundur áætlaður 18. nóvember. Þessi fundur var fyrst auglýstur sl. vor en vegna dræmrar þátttöku varð að fresta honum. Nú er okkur ekkert að vanbúnaði. Þessi fundur er haldinn í tilefni 20 ára afmælis félagsins og munum við reyna að gera hann eins vel úr garði og við getum og félagið ætlar að greiða rausnarlega niður kostnað. Þess má geta að veg og vanda af undirbúningi hátíðarfundarins hefur hópur sem kallar sig „öldunga“ eða „öldungaráð“. Hópurinn samanstendur að mestu leyti af fyrrverandi formönnum félagsins sem geta greinilega ekki hætt að starfa, sem betur fer fyrir okkur hin. Fundurinn verður auglýstur rækilega innan skamms og ég skora á félagsmenn að mæta.
Að endingu hvet ég félagsmenn enn og aftur til að nota þennan vettvang eins og þeir mögulega geta.
Óskar Þorsteinsson
formaður.