Við höfum tekið okkur fyrir hendur að bera ákvæði um brunavarnir saman við ákvæði eldri byggingarreglugerðar. Samanburðurinn leiðir í ljós svo ekki verður um villst, að kröfur um brunavarnir bygginga eru auknar á nánast öllum sviðum og vandfundin eru ákvæði sem ganga skemmra en áður.Þetta vekur furðu í ljósi opinberrar kynningar á reglugerðinni.
Úr opinberu kynningarefni Mannvirkjastofnunar:
„Í kafla 9 um varnir gegn eldsvoða er framsetningu á kröfum gjörbreytt, þó svo að kröfustigi sé að mestu haldið sambærilegu og áður. Markmið eru gerð skýrari og krafa til brunahönnunar skilgreind betur en áður sem og kröfur vegna aðkomu björgunarliðs. Nýtt er að settar eru fram kröfur um vatnsúðakerfi á hjúkrunarheimilum, sjúkrahúsum og stofnunum fyrir aldraða og fatlaða en í stað kemur að kröfur um brunahólfun þessara bygginga eru minnkaðar og þannig talið að kostnaðarauki verði lítill.“
Skoðum hvernig til hefur tekist:
Byggingarreglugerð 112/2012
Samanburður ákvæða um brunavarnir við eldri reglugerð
9.1.2. Almennt um notkunarflokka
Ný krafa er um brunahólfun (lágmark EI60) milli notkunarflokka innan mannvirkis.
Krafa um aðskildar flóttaleiðir fyrir hvern notkunarflokk getur leitt til dýrra lausna á flóttaleiðum þar sem þurft getur að hafa tvö stigahús hlið við hlið! (ef t.d. skrifstofur og fyrirlestrasalir eru á sömu hæð).
Ekki má hafa fleiri en einn notkunarflokk innan mannvirkis nema uppfylla þessar kröfur, sem eru ófrávíkjanlegar og ekki leyft að beita brunahönnun. Byggingar þjóna mjög oft blandaðri notkun og þessi ákvæði ganga þvert á slíkan tilgang.
9.2.2. Almennt
Vísað er í Viðauka II þar sem eru talin upp þau tiltölulega fáu ákvæði sem nú er heimilt að víkja frá með tækniskiptum eða brunahönnun. Af þessu leiðir að flest forskriftarákvæði um brunavarnir eru nú orðin óbreytanleg lágmarksákvæði sem óheimilt er að víkja frá, hvað sem líður hagkvæmni, tæknilegum rökum eða öryggissjónarmiðum. Þetta er gerbreyting frá fyrri reglugerð sem segir að markmiðsbundin brunahönnun skuli alltaf lögð til grundvallar brunavörnum hvort sem kröfurnar eru vægari eða strangari en forskriftarákvæðin. Þetta slær í reynd striki yfir nánast alla markmiðsbundna brunahönnun og mun leiða til sóunar verðmæta þar sem val brunavarna fær ekki lengur að ráðast af tilgangi og hagkvæmni.
9.2.5. Staðfesting brunavarna í þegar byggðum mannvirkjum
Hér eru nýjar reglur um að við breytta notkun skuli mannvirkið uppfylla nýjar kröfur að fullu.
Áður (12.8.) átti að miða við þær reglur sem voru í gildi þegar það var byggt eftir því sem hægt er að teknu tilliti til gildandi krafna um öryggismál. Út af fyrir sig er til bóta að fá skýrari ákvæði þar sem túlkun á þessu var umdeild, en það er óneitanlega verið að herða kröfur frá fyrri reglugerð. Kröfur um forskriftarlausnir munu í mörgum tilvikum útiloka að eldri hús verði tekin undir nýja, örugga og hagkvæma notkun.
Í greininni er breytingum skipt í fjóra flokka með mismunandi kröfum og er augljóst ósamræmi í þeim. Við minni háttar breytingu á mannvirki skal hönnuður staðfesta að brunavarnir mannvirkisins séu fullnægjandi, sem getur kallað á stórúttekt og lagfæringu alls hússins, en ef endurnýja á hluta húss þarf ekki að uppfæra gamla hlutann, einungis staðfesta að varnir hans séu ekki skertar.
9.2.6. Þátttaka slökkviliðs í björgun
Nú skal auka brunavarnir ef útkallstími slökkviliðs er yfir 15 mín. Ekki hefur verið gefið út hvernig það skuli gert (MVS skal gefa út leiðbeiningar) en ljóst er að þetta eykur byggingarkostnað í öllum litlum sveitarfélögum.
9.3.1. Flatarstærðir, rúmmál og breidd rýmingarleiða
Breidd rýmingarleiða miðast nú við nettó (hindrunarlaust) umferðarmál en var áður miðað við breidd hurðarblaðs. Þetta breikkar hurðir í flóttaleiðum.
9.3.2. Veggsvalir, svalagangar og millipallar innanhúss
Millipallur skal nú reiknast sem sjálfstæð hæð ef hann er stærri en 200 m2í NF1. Áður gat, skv. 111.12-13, milligólf verið allt að 50% af stærð brunahólfs í iðnaðar- og geymsluhúsi og mátti þá hanna burðarvirki þess fyrir raunbruna gagnvart hruni við slökkvistarf (sem er eðlileg markmiðskrafa). Þetta setur auknar kröfur á öll milligólf yfir 200 m2þar sem þau skal nú reikna sem hæðaskil með minnst REI60 og allt upp í R(EI) 240 brunamótstöðu skv. 9.10.3. Þetta er nú ófrávíkjanlegt og má ekki brunahanna.
9.3.6. Brunastúkur
Ný krafa um að einungis tvennar dyr megi vera á brunastúku. Þetta krefst í langflestum tilvikum aukins pláss fyrir brunastúku sem ekki nýtist til annars, en áður var hægt að nýta gang með aðkomu að öðrum rýmum sem stúku.
9.3.7. Brunahólfun
Lágmarks brunamótstaða er EI60 sé ekki annað tekið fram. Áður máttu hurðir almennt vera einum flokki lakari þ.e. EI30 hurðir og E30 gluggar í EI60 vegg og er það almennur praxís.
9.3.8. Eldvarnarveggur
Ný krafa um að brunaþol sé ávallt aukið umfram REI120-M ef brunaálag er yfir 800 MJ/m2 (sem er ekki óalgengt).
Aukin krafa um frágang á þaki við eldvarnarvegg: REI60 á 1,2 m til beggja hliða. Áður EI60, 1,2 m út eða A-EI60, 0,6 m út.
9.3.9. Brunaeiginleikar einangrunar
Búið er að skilgreina betur en áður hvar má nota stálsamlokueiningar og vísa í staðal í stað þess að vísa í mat Brunamálastofnunar, en jafnframt eru notkunarmöguleikar þrengdir. Þetta er nú ófrávíkjanlegt og má ekki brunahanna.
Dregið hefur úr kröfu um einangrun ofan á steypt þak. Nú þarf „aðeins“ þakklæðningu T ofan á, en áður þurfti líka óbrennanlegt farg þar ofan á. Þetta breytir þó litlu, þar sem helsta notkunin er viðsnúið þak þar sem dúkurinn er undir og fargið ofan á.
9.3.10. Stigahús 1
Hertar kröfur á hurðalokara.
Stigahús 1, sem er án brunastúku að kjallara, má vera í allt að 4ra hæða húsi. Skv. eldri reglugerð (204.4) þurfti brunastúku að kjallara ef hús var yfir 3 hæðir. Það hefur því verið slakað á kröfunni um brunastúku fyrir 4ra hæða hús (mistök?).
9.3.12. Stigahús 3
(öryggisstigahús)
10 m hámarksfjarlægð að svölum/stúku á nú við notkunareiningu en átti aðeins við íbúðir áður.
Nú er gert ráð fyrir að yfirþrýst stúka geti komið í stað svala (þetta var áður útfært í brunahönnun).
9.3.13. Stigar utanhúss
Ný krafa á brunamótstöðu útveggja og hurða við stiga utanhúss. Ekkert var fyrirskrifað um þetta áður, en oft ákveðið í brunahönnun. Nú er þetta krafa, hvort sem er hægt að sýna fram á að það sé nauðsynlegt eða ekki.
9.4.2. Sjálfvirk brunaviðvörun
Nýjar kröfur um brunaviðvörunarkerfi mjög víða þar sem ekki var krafist áður. T.d. í skrifstofum í yfir 3ja hæða húsum, skrifstofum yfir 1000 m2, verslunum, hótelum fyrir 11-20 manns, ofl. ofl.
Nýjar kröfur um töluð skilaboð í notkunarflokkum 2 og 4 þar sem tryggja þarf skjót viðbrögð. Áður var brunahönnuðum treyst til að meta þörf á þessu.
9.4.3. Stakir reykskynjarar
Krafa um reykskynjara nánast alls staðar þar sem ekki eru sjálfvirk viðvörunarkerfi. Var áður aðeins í íbúðum og frístundahúsum. Þó að þetta sé nú „óhannanlegt“ (þ.e. ekki í viðauka 2) er þó reyndar gefið færi á að beita mati þar sem krafan er að reykskynjarar séu settir í byggingar „þar sem slíkt er talið nauðsynlegt“ – og þar með að sleppa þeim þar sem þeirra er ekki þörf.
Krafa um aukinn fjölda skynjara í íbúðum. Áður einn pr. íbúð en nú að auki einn hver hæð og pr. 80 m2 max.
Alveg ný krafa er um að reykskynjarar í íbúðarhúsum skuli vera harðvíraðir í rafkerfi hússins, auk rafhlöðu.
9.4.4. Handslökkvitæki
Handslökkvitæki skulu nú vera í öllum byggingum. Þar með talið t.d. í landbúnaðarbyggingum þar sem ekki þurfti áður.
9.4.5. Slöngukefli
Nú skulu slöngur vera í öllum húsum í NF1 og NF2 yfir 200 m2. Áður í öllum skólum, samkomudeildum fyrir 150 manns, verslunum og skrifstofum yfir 500 m2. Þarna er því víðast verið að herða kröfur.
Nú skulu slöngur vera í öllum byggingum í notkunarflokkum 4, 5 og 6 þar sem þess er þörf vegna brunaálags. Mannvirki í NF5 og 6 skal ávallt brunahanna þ.a. þetta er eðlilegt, en í NF4 (hótel) er nú ekkert annað viðmið; áður skyldu slöngur vera í hótelum >20 manns.
9.4.6. Sjálfvirk slökkvikerfi
Nú er krafist úðakerfa í fjölmörgum flokkum bygginga þar sem þess var ekki krafist áður.
Áður var krafa um úðakerfi í verslunum >2000 m2 á einni hæð en 1000 m2 í hærri húsum, iðnaðarhúsum >2000 m2, leiksvið >100 m2, bílageymslu með loft undir yfirborði jarðar.
Nú er að auki krafa um úðakerfi m.a. í öllum skólum yfir 2000 m2 en >1000 m2 ef opið er milli 2ja hæða, fleiri bílageymslum, iðnaðarhúsum niður í 500 m2, hótelum yfir 4 hæðir, sjúkrahúsum ofl. Þess ber að geta að þetta er sett fram sem ófrávíkjanlegar kröfur, þ.e. þær, eins og margar aðrar mega nú ekki vera viðfangsefni brunahönnunar.
Til viðbótar þessu er ófrávíkjanleg ný krafa um úðakerfi í öll hús yfir 8 hæðir skv. 9.6.27.
Einnig kemur fram í grein 9.6.23 að úðakerfi skuli setja í allar byggingar í notkunarflokki 5, þ.á.m. í alla leikskóla og yngstu bekki grunnskóla.
Þessar staðreyndir eru í pínlegu ósamræmi við opinbera kynningu á reglugerðinni þar sem því er haldið fram að einungis sé verið að bæta við kröfum um úðakerfi í sjúkrahús og öldrunarheimili og að það kosti lítið þar sem dregið sé úr öðrum kröfum á móti.
Með því að krefjast úðakerfa í fleiri gerðir bygginga fortakslaust án þess að draga úr öðrum kröfum á móti (jafnvel auka þær), er almennt verið að auka kostnað og jafnframt útiloka hagkvæmar lausnir sem annars fengjust við það að beita tæknibýttum með úðakerfi gegn öðrum vörnum eins og mjög algengt hefur verið og skilað hefur góðum árangri.
9.4.11 Almenn lýsing á flóttaleiðum
Ný krafa um að tengja ljós í stigahúsum í víxl á sitt hvora grein, og að auki verja raflagnir að þeim fyrir 30 mínútna bruna(!). Þetta er til viðbótar kröfum um neyðarlýsingu.
9.4.12. Neyðarlýsing
Nú er krafist neyðarlýsingar í öllum byggingum nema í NF3. Þurfti áður ekki m.a. í landbúnaðarbyggingar, iðnaðarhús <200 m2, hótel <20 manns, skrifstofum (nema í flóttaleiðum), skólum (nema flóttaleiðum).
Auknar kröfur um birtumagn og viðbragðstíma neyðarlýsingar: Ljósmagn í tröppum er aukið í 5 lúx en staðalkrafan er 1 lúx. Viðbragðstími skal nú styttur tífalt niður í 0,5 sek fyrir 50% ljósstyrk miðað við 5 sek skv. EN staðli og fyrri reglugerð. Erfitt kann að vera að fá búnað sem ekki er samkvæmt staðli og kann að þurfa að sérsmíða fyrir séríslenskar kröfur með tilheyrandi kostnaði.
Nýjar kröfur um brunavörn á lagnir að NL og aðskilnað lagna fyrir mismunandi brunasamstæður.
9.5.1. Markmið
Markmiðsákvæðið í þessari grein er eðlilegt og fullnægjandi sem slíkt. En af einhverjum ástæðum hefur þótt nauðsynlegt að endurtaka það með smá tilbrigðum a.m.k. fjórum sinnum, í greinum 9.5.2, 9.5.6, 9.5.8 og 9.5.9. Spyrja má hvort markmiðin hafi verið gerð skýrari með þessu?
9.5.3. Aðgengi að flóttaleiðum
Nú er almenn krafa um tvær óháðar flóttaleiðir frá öllum rýmum þar sem fólk dvelur, til öruggs staðar á jörðu niðri. Undantekningar eru einungis leyfðar í NF 1 og 2, fyrir mest 50 manna og 150 fermetra rými með ýmsum fleiri takmörkunum, til að rýma beint út eða út á gang sem liggur í gagnstæðar áttir. Þetta er mikil breyting frá því sem er í fyrri reglugerð, sjá grein 206. Telja verður ógerlegt að reisa t.d. hótel sem uppfyllir þessar kröfur, svo ekki sé talað um sjúkrahús og aðrar stofnanir, íbúðir fyrir aldraða og jafnvel fangaklefa (!) þar sem öll rými þar sem fólk dvelur eiga að hafa tvær óháðar flóttaleiðir !
Mannvirkjastofnun er byrjuð að gefa út álit þar sem því er lýst að þessi krafa eigi ekki að gilda fyrir hótel og að þau megi hanna eftir grein 9.5.4. Að óbreyttri reglugerðinni fer álitið þvert gegn skýrum texta hennar.
9.5.4 Ein flóttaleið frá rými
Þetta er ákvæði sem má bera saman við 206.3 í eldri reglugerð, en er háð alvarlegum takmörkunum og gildir auk þess aðeins fyrir NF1 og NF2 eins og fyrr segir.
Rýming um björgunarop virðist hvergi vera leyfð (sjá þó 9.5.5) og fellistigar eru hvergi nefndir á nafn.
9.5.5. Björgunarop
Kröfur um stærð björgunaropa hafa aukist frá kröfum í 159.2 í eldri reglugerð.
Skilgreining björgunaropa er óljós og í mótsögn við skilgreiningu flóttaleiða: „Björgunarop … eru … gluggar eða hlerar sem nota má við flótta úr eldsvoða til öruggs svæðis eða til að gera vart við sig“. Eru björgunarop þá flóttaleiðir? Ekki ef marka má grein 9.5.8 sem segir að flóttaleiðir séu gangar, stigar og flóttalyftur. Skv. því má ekki nýta björgunarop sem flóttaleið þar sem hennar er krafist t.d. skv. grein 9.5.3 – eða hvað? Hvað er „Öruggt svæði“ í þessu samhengi? – Varla öruggt svæði fyrir hreyfihamlaða sbr. gr. 9.5.11 ! Líklega er átt við „öruggan stað“ skv. 9.5.3 á jörðu, þaki eða svölum. En má flóttaleið þá liggja um björgunarop út á þak? Má gluggi á jarðhæð vera flóttaleið? Í eldri reglugerð voru handhæg ákvæði í grein 206.6 sem leyfðu notkun björgunaropa sem flóttaleið við vissar aðstæður en hafa nú verið felld brott með þeim afleiðingum að tilgangur og notkun björgunaropa er í algerri óvissu.
Nýjar takmarkanir eru settar á staðsetningu björgunarops gagnvart þaki og ráðstafanir á því.
9.5.6 Göngulengd flóttaleiða
Nýjar reglur um göngulengdir eru teknar upp úr sænskum reglum en styttar talsvert (45 m í 40, 30 m í 25), hver svo sem ástæðan kann að vera til þess.
Þessar reglur gefa í sumum tilvikum kost á lengri flóttaleiðum en eldri regla, og þá yfirleitt í þeim tilvikum þar sem lengri leiðir hefðu verið rökstuddar í brunahönnun.
Í algengustu tilvikunum gildir þó 25 metra reglan eins og áður, en nú með þeirri takmörkun að sá hluti sem er í eina átt reiknast tvöfalt nema 1,5x í bílageymslum (sænska reglan segir x1,5 í skrifstofum og skólum). Auk þess skal nú reikna með að fólk gangi þvert á veggi en ekki í átt að útljósi (hver svo sem rökin eru fyrir því). Þetta hvort tveggja leiðir til verulegar styttingar á leyfðum flóttaleiðum og þar með dýrari lausna með fleiri stigum og göngum.
9.5.7. Fólksfjöldi
Tafla með nýjum viðmiðum um fjölda gefur víðast sama fjölda þar sem áður var gefið viðmið, en í opnum skrifstofum er fjöldinn tvöfaldaður. Aðrar tölur í töflunni ættu að geta verið handhægt viðmið, en eru settar fram sem algild og ófrávíkjanleg lágmarkskrafa. Eigi það að gilda mun það almennt leiða af sér dýrari lausnir en áður. Til dæmis getur krafa um að í sal þar sem setið er skuli reikna minnst tvo menn á fermetra, ásamt kröfunum í 9.5.9, leitt til gríðarlegrar yfirhönnunar á flóttaleiðum.
9.5.9. Gerð flóttaleiða
Fyrri regla um 1 m á 100 manns í heildarbreidd flóttaleiða er óbreytt. Við bætist ný regla sem segir að lokist ein leið skuli þær sem eftir eru vera 1m fyrir hverja 150. (Sænskar reglur segja 1 m fyrir hverja 300!). Þetta leiðir til aukinnar breiddar flóttaleiða, alltaf þegar flóttaleiðir eru tvær. Dæmi: Úr 200 manna sal þurfti áður tvennar 1,0 m dyr (eða t.d. 1,1 m og 0,9 m) en nú þarf hvor um sig að vera a.m.k. 1,33 m.
Nýtt ákvæði um 1,5 m lágmarksfjarlægð milli dyra og stiga stækkar flesta stigapalla sem nemur mörgum fermetrum.
Í þessu samhengi þarf einnig að skoða ákvæði gr. 6.4.7 um að ef hurð opnast út á stigapall skuli auka bæði lengd og breidd pallsins sem nemur breidd hurðarinnar. Þetta bætir enn fleiri (í flestum tilvikum óþörfum) fermetrum við stigapallinn með tilheyrandi (oftast óþarfa) kostnaði. Benda má á að ef 1,5 metra reglan hér að ofan er uppfyllt er engin ástæða til að stækka stigapallinn, þar sem hurðin þrengir ekki flóttaleiðina.
Ekki er leyft að rökstyðja frávik frá þessum reglum og munu þær því óhjákvæmilega leiða af sér dýrari byggingar – án þess að bæta í reynd neinu við öryggið.
Stigahús skal opnast beint út eða í anddyri sem er sér brunahólf. Ekki er lengur leyft að hanna annað fyrirkomulag, sem eldri reglugerð gaf þó sérstaklega kost á (204.10).
9.5.10. Dyr í flóttaleið
Nýtt ákvæði um að ávallt skuli vera hægt að rýma til baka í flóttaleið að annarri. Þetta mun mjög víða kosta dýrar og flóknar lausnir á aðgengis- og opnunarbúnaði.
Ný krafa um létt opnunarátak á hurðum fyrir AH sem almennt mun þýða rafknúna opnun með tilheyrandi kostnaði.
Nú er bannað að nota rafknúnar renni- og hverfi hurðir í flóttaleiðum í notkunarflokki 2. Þær eru mjög algengar í verslunum og almennt í opinberum byggingum sem yfirleitt eru í þessum notkunarflokki. Þessi krafa þýðir viðbótarhurðir fyrir flóttaleiðir við hlið hinna, mjög víða þar sem ekki þurfti áður.
9.5.11. Öruggt svæði fyrir hreyfihamlaða
Þetta er ný krafa um aukapláss í stigahúsum, rafknúinn opnunarbúnað og sérstakt samskiptakerfi.
9.5.12. Leiðamerkingar á flóttaleiðum
Nú verður heimilt að nota eftirálýst leiðarmerki í stað útljósa, sem brunahönnuðir hafa gert í nokkrum mæli hingað til en ekki er fjallað um í eldri reglugerð.
Ný krafa um merkingar fyrir sjónskerta.
Nú er krafist leiðarmerkinga í öllum húsum nema NF3. Þurfti áður ekki m.a. í landbúnaðarbyggingar, iðnaðarhús <200 m2, hótel <20 manns, skrifstofum (nema í flóttaleiðum), skólum (nema flóttaleiðum).
9.6.4 Olíugeymar og olíuskiljur
Hér eru ófrávíkjanlegar kröfur um frágang olíugeyma, m.a. að þeir skuli vera utanhúss, án nokkurs tillits til stærðar né annars. Þegar eru komin upp tilfelli þar sem Mannvirkjastofnun er farin að gefa út undanþágur frá þessum kröfum – án þess að hafa heimild til þess svo vitað sé.
9.6.8. Veggir, loft og fastar innréttingar
Nú skal allt húsnæði í NF1 hafa klæðningar í flokki 1 en áður mátti hafa klæðningar í fl. 2 í allt að 200 m2 brunahólfum í iðnaðarhúsum og gripahúsum.
9.6.9. Klæðningar á loftum og veggjum í flóttaleiðum
Nú skulu allar klæðningar vera í flokki 1. Áður máttu veggir á göngum vera í fl. 2 í allt að 1,2 m frá gólfi. (205.4)
9.6.10. Gólfefni
Hertar kröfur um gólfefni í stigahúsum og einnig kyndiklefum og rýmum þar sem unnið er með eldfim efni. Áður var almenn krafa Dfl en nú allt upp í A1fl.
9.6.11. Röraeinangrun
Nýjar kröfur þar sem engar voru áður, nema almenna krafan um D-s2,d0 byggingarefni. Nú allt upp í A2-s1,d0.
9.6.12. Brunahólfun
Stórhertar kröfur um brunahólfun:
Nú skulu hurðir vera í sama flokki og veggurinn (sem reyndar stangast á við ýmis önnur ákvæði annars staðar í reglugerðinni).
Áður var almenna krafan EI60 brunahólf og EI90 brunasamstæður og hurðir almennt einum flokki lægri. Nú er krafan bæði á veggi og hurðir frá EI60 og allt upp í EI 180.
9.6.13 Loftræsikerfi
Hér eru ýmis fyrri forskriftarákvæði, leiðbeiningar og staðlaviðmið orðin að ófrávíkjanlegum kröfum.
Forskriftarákvæði um frágang loftrása frá eldhúsum (187.17 í eldri rg.) er hert úr E30 B-s1,d0 í EI60 A2-s1,d0 og má ekki rökstyðja frávik frá því.
9.6.14. Brunamótstaða hurða og hlera
Þessa grein verður að lesa saman við 9.6.12. Heimilt er með úðakerfi eða ef brunaálag er mjög lítið að nota hurðir með 30 mín minni brunamótstöðu en veggurinn, þó ekki í NF 2,5 og 6. Þetta þýðir t.d. að við fáum a.m.k. 60-90 mínútna hurðir í íbúðum fyrir aldraða, sjúkrahúsum, skólum, verslunum, samkomusölum o.fl. , jafnvel þótt þar sé úðakerfi. Þetta eru verulega auknar kröfur frá því sem áður hefur tíðkast.
Hert krafa um lyftuhurðir sem áður var EI-C30 (gr. 201.10) en nú EI30-CSa. Alþekkt er að ekki er hægt að fá reykþéttar rennihurðir á lyftur þannig að nú má í raun ekki byggja lyftu með rennihurðum.
9.6.16 Vörn gegn útbreiðslu elds frá lægra liggjandi þaki
Krafa um eldvarnarvegg ofan lægra þaks er nú framlengd 6 m út til hvorrar hliðar frá þakinu. Þetta stangast illa á við 2ja m regluna í 9.6.28 og gengur óskiljanlega langt.
9.6.17 Kröfur vegna svalaskýla
Fyrri viðmið lítið breytt, eru nú orðin að ófrávíkjanlegum kröfum.
9.6.18 Brunahólfun stærri bygginga
Nýtt íþyngjandi ákvæði um hámarksstærðir brunahólfa sem ekki var áður.
9.6.19. Brunahólfun – varnir í notkunarflokki 1
Hér er – alveg óvænt – fyrra viðmið um stærð brunahólfs í skrifstofuhúsnæði stækkað um 100%.
9.6.20. Brunahólfun – varnir í notkunarflokki 2
Hér eru kröfur nánast óbreyttar frá eldri rglg. en stangast illilega á við 9.6.12 sem hefur að geyma harðari reglur og er hvergi hægt að sjá hvor krafan á að ráða. Eigi 9.6.12 að ráða er verið að herða kröfur verulega.
9.6.21. Brunahólfun – varnir í notkunarflokki 3
Nú er leyft að hafa hurð úr bílskúr inn í stofu ef hún er EI60-CS.
Hert krafa um EI90 brunahólfun íbúðar frá sameign. Var áður einungis milli íbúða.
Hurð að íbúð þarf nú að vera a.m.k. EI90, skv. 9.6.12.
Krafa um klæðningar í 200 m2 brunahólfum á ekki heima í þessari grein og stangast þar að auki á við 9.6.8 og ekki hægt að sjá hvor krafan ræður.
9.6.22. Brunahólfun – varnir í notkunarflokki 4
Kröfur um brunahólfun gistiherbergja stangast á við 9.6.12 sem hefur að geyma harðari reglur og er hvergi hægt að sjá hvor krafan á að ráða. Eigi 9.6.12 að ráða er verið að herða kröfur verulega.
Svefndeild skal nú vera EI90 hólf með EI90 hurðum en var áður brunasamstæða með EICS60 hurðum.
9.6.23. Brunahólfun – varnir í notkunarflokki 5
Kröfur um brunahólfun íbúða, sjúkrastofa, leikskóladeilda stangast á við 9.6.12 og er ekki hægt að sjá hvor krafan ræður. Hvor krafan sem ræður, eru kröfur verulega auknar, einkum á hurðir.
Hér er krafa um úðakerfi og brunahönnun sem ekki á heima í þessari grein heldur í 9.4.6. Krafan gildir um mannvirki þar sem fólk þarf aðstoð við rýmingu, eða með öðrum orðum öll mannvirki í notkunarflokki 5, og þýðir þá að krafist er úðakerfis m.a. í öllum leikskólum og yngstu bekkjum grunnskóla. Þetta er ný krafa og bætist við kröfurnar skv. töflu 9.0.3.
9.6.26. Lyftur
Aukin krafa á brunahólfun lyftuhúss og rýmis fyrir vélar. Hurðir skulu nú vera EI60, áður EI-C30.
Sjá einnig grein 9.6.14 með kröfum á lyftuhurðir sem banna í reynd lyftur með rennihurðum.
9.6.27. Háhýsi
Ný krafa um að vatnsúðakerfi skuli undantekningarlaust vera í öllum húsum hærri en 8 hæðir eða 23 m. Áður hafa verið byggð allt að 20 hæða hús án úðakerfis.
9.6.28. Gluggar í útveggjum
Engar reglur voru áður um aðgerðir vegna sambrunahættu. SHS gaf út viðmið sem mátti nota ef ekki var farið í útreikninga. Nú eru þau, með nokkrum ábótum, orðin að viðmiði sem þó má einungis nota við mjög takmarkaðar aðstæður, þ.e. milli EI 60 brunahólfa með mjög litlu brunaálagi. Hér er því verið að herða kröfur frá því sem tíðkast hefur í hönnun bygginga. Jákvætt er þó að hér er gefinn kostur á að beita brunahönnun til að uppfylla skilgreind markmið og velja á milli þess og forskrifaðrar lausnar við vissar aðstæður. Þessi grein er dæmi um hvernig hægt er að orða ákvæði reglugerðarinnar þannig að úr verði nothæfar lausnir, bæði forskrifaðar og hannaðar, og það án þess að grípa þurfi til Viðauka 2.
9.7.1. Markmið
Sett er fram ný krafa um hámarksgeislun milli bygginga 13 kW/m2 án tillits til aðstæðna og án þess að geta þess við hvaða forsendur skuli miðað. Sé reynt að beita þessu ákvæði á hefðbundna geislunarreikninga mun það víða leiða af sér óhæfilega dýrar lausnir, þ.e. í þeim tilvikum þegar hægt er að sýna fram á að hærri geislun sé ásættanleg.
9.7.4. Eldvarnarveggir
Auknar kröfur um brunaþol eldvarnarveggja og þaks næst þeim sbr. 9.3.8.
9.7.5. Bil á milli bygginga
Sömu viðmið og áður, en nú bætist við að ef gluggar fari yfir 50% af veggfleti skuli lágmarksfjarlægð sýnd með útreikningum. Þessi aukna krafa getur leitt af sér a) meiri fjarlægða milli bygginga með stórum gluggum, b) minni glugga, eða c) dýrari útfærslur með brunaþolnum gluggum.
Nú má setja bílskúr >1 m frá lóðarmörkum með EI 90 gluggalausum vegg í stað REI 120M. Þetta er lítils háttar tilslökun í sumum tilvikum, en er íþyngjandi ef ekki er byggt á nágrannalóð nær bílskúrnum en 6 m. Spyrja verður af hverju hér er allt í einu miðað við fjarlægð frá lóðarmörkum eins og gert var 1978 en ekki bil milli húsa sem verið er að setja reglur um.
9.8.1. Sérstakar kröfur vegna mannvirkja í notkunarflokki 1
Hert krafa um aðskilnað eldfimra efna í EI60 brunahólfi með EI60-S hurð. Áður gilti EI60 hólfun með EICS30 hurð í allt að 2000 m2 brunasamstæðum.
9.8.2. Sérstakar kröfur vegna mannvirkja í notkunarflokki 2
Nú skulu allir samkomusalir hafa opnunarbúnað skv. EN 179 og paníkslá skv. EN 1125 í sölum fyrir >150 manns. Áður gilti krafan einungis um vængjahurðir (208.2) og yfir 150 manns.
Ný krafa um neyðarlýsingu á stigaþrep.
Ný krafa um hjólastólabiðsvæði fyrir 1% gesta.
9.8.3. Sérstakar kröfur vegna mannvirkja í notkunarflokki 3
Ný krafa um lágmarksstærð svala 4 m2 og 1,60 á breidd. Áður aðeins 1,60 á breidd. (104.17)
Ákvæði um REI 30 berandi byggingarhluta stangast á við brunahólfunarkröfur (EI 90) í 9.6.21. (Undarlegt að sérkröfur um notkunarflokka skuli vera á tveimur stöðum og í báðum eru samskonar ákvæði). Þetta ákvæði er þó hvort eð er merkingarlaust því lágmarkskrafan er a.m.k. R90 burðarvirki í 9.10.3, sem ekki má víkja frá.
Nú skal vera björgunarop á hverju svefnherbergi í sérbýlishúsum. Áður dugði eitt úr svefndeild ef hún var sjálfstætt brunahólf (103.10).
Ný krafa um út og neyðarlýsingu í flóttaleiðum fjölbýlishúsa. Var engin áður.
Krafa um reykskynjara stangast á við 9.4.3.
9.8.4. Sérstakar kröfur vegna mannvirkja í notkunarflokki 4
Gistihús fyrir >10 manns skal nú hanna sem hótel (NF4) en áður mátti hafa allt að 20 gistirými í húsnæði sem uppfyllti kröfur um fjölbýlishús (110.2) ef reykskynjarar voru samtengdir (110.21). Hér er því verið að þrengja verulega möguleika á hönnun gistihúsnæðis og auka kröfur.
Í heimagistingu skal nú vera reykskynjari í hverju herbergi en þurfti ekki áður sbr. íbúð í fjölbýli.
Frístundahús til útleigu skulu nú uppfylla allar kröfur um íbúðarhús en var áður undir sérákvæðum um frístundahús. Ef gestafjöldi er yfir 10 gilda nú hótelkröfurnar að fullu en áður að svo miklu leyti sem unnt er. (115.6)
Ef ekki er hægt að hafa fullgildar klæðningar, kerfi og lýsingu í fjallaskálum oþh. skal nú bæta það upp með auknum útgöngum sem er hert krafa frá því sem áður gilti.
Byggja má gististað sem sjálfstæðar íbúðir skv. NF3 en einungis ef heildargestafjöldi hússins er max 10 manns. Þetta er veruleg herðing frá því sem áður hefur verið talið eðlilegt þar sem ekki er lengur í raun hægt að byggja hótelíbúðir sem fjölbýlishús. Spyrja má svo hvernig þetta komi heim og saman við ákvæði um „stakar íbúðir“ í 1. mgr. þar sem ekkert hindrar væntanlega að margar „stakar íbúðir“ í sama fjölbýlishúsi séu leigðar út hver fyrir sig.
Nýtt ákvæði um opnanlegan glugga á hverju gistiherbergi. Var ekki áður.
Rétt er að minna hér á ákvæði gr. 9.5.3 sem gerir kröfur um tvær óháðar flóttaleiðir úr hverju einasta gistiherbergi og öðrum rýmum þar sem fólk dvelur– sem mun reynast afar dýrt að uppfylla.
9.9.1. Markmið
Nýtt ákvæði um að fjarlægð frá stigahúsi eða aðkomusvæði slökkviliðs að hvaða stað sem er í byggingu sé mest 40 m. (Þetta er tæpast hægt að kalla „markmið“). Þetta setur skorður við umfangi bygginga og fjölgar stigahúsum.
9.9.3. Aðkoma að þakrými og kjallara
Nýtt ákvæði um að fjarlægð frá stigahúsi eða aðkomusvæði slökkviliðs að kjöllurum tvær hæðir eða dýpri sé um stigahús með opna brunastúku.
9.9.4. Reyklosun
Val um reyklosunarbúnað í stað R60 burðarvirkis í allt að 1000 m2 byggingum. Þetta er sama krafa og var í eldri reglugerð. Þetta er krafa sem lýtur að burðarvirkjum en ekki aðkomu slökkviliðs og stangast á við lágmarkskröfur um burðarvirki í 9.10.3 og hefur því í raun ekkert gildi þar sem ófrávíkjanlega lágmarkskrafan í 9.10.3 ræður.
9.9.5. Stigleiðsla
Hertar kröfur um stigleiðslur. Þurfa nú alltaf að vera í >6 hæða húsum og djúpum kjöllurum en áður yfir 8 hæðir.
9.9.6. Brunavarnar- og flóttalyftur
Nú er bannað nota brunavarnalyftu sem flóttalyftu en áður var beinlínis tekið fram að slík lyfta væri ætluð sem flóttaleið ! (201.15)
9.10.3. Lágmarksbrunamótstaða burðarvirkja
Frá Mannvirkjastofnun hafa nýverið (í júlí 2012) borist fregnir um að grein þessi, „Lágmarksbrunamótstaða burðarvirkja“ sé ekki um lágmarksbrunamótstöðu burðarvirkja. Frekari skýringa er vænst, en á meðan annað liggur ekki fyrir er hér gert ráð fyrir að greinin segi það sem í henni stendur skýrum stöfum og heiti hennar gefur til kynna.
Lágmarksbrunamóstaða burðarvirkja er nú allt að 4 tímar (R240) en var áður aldrei meiri en R120. Ath. að þetta eru kröfur sem óheimilt er að víkja frá né beita brunahönnun á.
Nú eiga t.d. allar byggingar yfir 200 m2að vera með minnst R60 burðarvirki, en áður var reglan R30 fyrir allt að 600 m2hús á einni hæð (132.2) og efstu hæð allt að 600 m2(132.7).
Byggingar 0 til 200 m2skulu nú hafa a.m.k. R30 burðarvirki en engin krafa áður (132.1).
Nú skulu allar byggingar 3-7 hæðir hafa minnst R90 og allt upp í R180 burðarvirki, en áður voru efstu 12 m frá gólfi efstu hæðar (þ.e. allt að 5 efstu hæðirnar) með R60 kröfu (efsta hæð R30 sbr. hér að framan) en R120 þar fyrir neðan (132.6).
Tveggja hæða hús í NF2 og NF3 skulu nú vera a.m.k. R90, þ.á.m. einbýlishús sem áður voru R30.
Hertar kröfur á brunaþol stiga: Stigar verða nú alltaf minnst R60. Áður átti stigi í flóttaleið að vera A-R30 en mátti vera úr B-efnum án brunakröfu í tveggja hæða húsum (204.1). Stigar sem ekki voru í flóttaleið voru án brunakröfu. Hér eftir verða þá allir stigar steyptir og hvergi leyft að byggja stiga úr tré eða stáli.
Hér er verið að auka verulega kröfur um brunaþol burðarvirkja fyrir nánast allar stærðir og gerðir bygginga, eins og eftirfarandi samanburðartafla sýnir:
Flokkur bygginga | Viðmiðunarkrafa áður (mátti brunahanna) | Gr. | Ófrávíkjanleg lágmarkskrafa nú (kröfur fyrir hærra brunaálag í sviga) |
0-200 m2á einni hæð | Engin | 132.1 | Engin í NF1, R30 í NF3 annars R60 |
200- 600 m2á einni hæð | R30 | 132.2 | R60 (R90, R120) |
2ja hæða | R30 efri hæð, R60 neðri | 132.6 | R60 (R90, R120) báðar hæðir, en R90 (R120, R180) í NF2 og NF3 |
3-5 hæðir | R30 efsta hæð, aðrar R60 | 132.6 | R90 (R120, R180) allar hæðir |
6-7 hæðir | R30 efsta hæð, næstu 4 R60, svo R120 | 132.6 | R90 (R120, R180) allar hæðir |
Yfir 7 hæðir | R30 efsta hæð, næstu 4 R60, svo R120 | 132.6 | R120 (R180, R240) allar hæðir |
Fjölbýlishús 2-7 hæða | R30 efsta hæð, næstu 4 R90, svo R120 | 104.8 og 132.6 | R90 (R120, R180) allar hæðir |
Fjölbýlishús >7 hæða | R30 efsta hæð, næstu 4 R90, svo R120 | 104.8 og 132.6 | R120 (R180, R240) allar hæðir |
Stigar í flóttaleið | A-R30 ef > 2hæðir, B- efni í 2ja hæða húsi | 204.1 | R60 (R90, R120) |
Aðrir stigar | Engin krafa | R60 (R90, R120) | |
Svalir 2ja hæða hús | B-efni | 132.10 | D-s2,d0 (B-efni) |
Svalir 3-4 hæða | Stál óvarið ef þær þjóna einu brunahólfi | 132.9 | R60 á 2. hæð, annars R90 eða meira eins og hæðaskilin |
Svalir > 4 hæða hús | R60 | 132.8 | R60 á 2. hæð, annars R90 eða meira eins og hæðaskilin |
Einu tilfellin þar sem nýja reglugerðin gerir hugsanlega vægari kröfur er á neðstu hæð 6 hæða húsa og neðstu tveimur hæðum 7 hæða húss. Annars staðar eru kröfur jafn miklar eða (langoftast) meiri en áður.
Lágmarkskrafa R90 og yfir lækkar um einn flokk ef byggingin er með vatnsúðakerfi. Þetta er líkt og oft hefur verið gert í brunahönnun þar sem tæknibýttum er beitt á burðarvirki og úðakerfi, en nú er ekki lengur leyft að beita sjálfstæðu tæknilegu mati, og „tæknibýttin“ koma nú brunamótstöðunni aldrei neðar en í R60.
Þessar kröfur gera það að verkum að hönnun burðarvirkja með brunatæknilegum aðferðum heyrir nú sögunni til, þar sem niðurstaðan fær ekki að ráðast af þeim.
Hönnun og bygging mannvirkja með óeldvörðu stálburðarvirki heyrir nú sögunni til (nema <200 m2geymslur). Sömuleiðis uppblásin hús, tjaldbyggingar og dúkskemmur.
Verulegur aukakostnaður fylgir auknum kröfum á burðarvirki og ekki síður því að fá ekki að reisa hagkvæmar byggingar sem henta fyrirhugaðri notkun.
9.10.4. Brunamótstaða svala
Verulega hertar kröfur um brunaþol svala. Þær skulu nú alltaf hafa sama þol og hæðaskilin, nema svalir á annarri hæð í NF3 mega vera R60. Aðeins í 2ja hæða húsum er ekki gerð krafa um brunamótstöðu. Allar svalir ofan 2. hæðar eiga því nú að hafa minnst R90 og upp í R240 brunamótstöðu. Áður máttu svalir í allt að 4ra hæða húsum almennt vera án brunakröfu ef þær voru úr óbrennanlegum efnum (132.9).
Þessar kröfur á svalir stangast á við flokkun svala sem „meðal áhættu“ skv. töflu 9.11, sem þýðir R60 kröfu.
9.10.5. Hönnun með náttúrulegu brunaferli
Með lágmarkskröfunum um brunamótstöðu burðarvirkja skv. 9.10.3 mun brunamótstaða burðarvirkja aldrei geta ráðist af hönnun með náttúrulegu brunaferli og er þessi grein því óþörf.
9.10.6. Yfirtendraður bruni
Með lágmarkskröfunum um brunamótstöðu burðarvirkja skv. 9.10.3 mun brunamótstaða burðarvirkja aldrei geta ráðist af hönnun með náttúrulegu brunaferli og er þessi grein því óþörf.
9.10.7. Staðbundinn bruni
Með lágmarkskröfunum um brunamótstöðu burðarvirkja skv. 9.10.3 mun brunamótstaða burðarvirkja aldrei geta ráðist af hönnun með náttúrulegu brunaferli og er þessi grein því óþörf.